17. mars. 2010 01:01
 |
Frá undirritun samningsins um Fab Lab í gær. |
Í gær var í bæjarþingsalnum á Akranesi, skrifað undir samning um frumkvöðlaverkefni sem ætlað er fólki á öllum aldri á Akranesi og nágrenni. Þetta er svokallað Fab Lab verkefni og verður það sett af stað nú í maímánuði. Samningur um verkefnið nær til tveggja ára en verður framlengdur um ár í senn komi ekki til uppsagna samstarfsaðila, en verkefnið er fjármagnað af Akraneskaupstað, Vaxtarsamningi Vesturlands og Norðuráli. Fab Lab verkefnið er í samstarfi Akraneskaupstaðar, Fjölbrautaskóla Vesturlands, SSV ráðgjafar og þróunar, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Norðuráls. Fab Lab smiðjan verður staðsett í Fjölbrautaskóla Vesturland og munu þátttakendur samnýta tækjabúnað smiðjunnar og skólans.
Fab Lab á uppruna að rekja út í heim, en verkefninu var hleypt af stokkunum með viðurkenndum árangri í Vestamannaeyjum árið 2008. Það er nú að fara af stað á Sauðárkróki auk Akraness og líklega einnig í Reykjavík. Fab Lab eru alþjóðlegt net stafrænna smiðja er ná allt frá Boston til Afganistan og Suður-Afríku til Noregs. Þeim er ætlað að ýta undir nýsköpun og frumkvöðlaanda einstaklinga og sprotafyrirtækja með því að veita einstaklingum aðgang að stafrænum framleiðslutólum.
Ítarlegar er greint frá þessu verkefni í Skessuhorni sem kom út í dag.