22. mars. 2010 12:01
Rektorar íslenskra háskóla lýsa yfir þungum áhyggjum af fyrirætlunum stjórnvalda um niðurskurð á fjárveitingum til háskólanáms. Í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra kemur m.a. fram að á þessu ári og því síðasta hafi íslenskir háskólar tekið á sig skerðingu sem nemur 8,5 – 15% af heildarfjárveitingum og samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneyti er gert ráð fyrir 25 – 30% niðurskurði til viðbótar á næstu tveimur til þremur árum. Rektorar telja augljóst að stórlega skert fjárframlög geri að engu uppbyggingu síðustu ára og veiki háskólakerfið einmitt nú þegar brýnt er að beita því til viðreisnar og endurbyggingar.