23. mars. 2010 03:36
Ferðaþjónustuklasinn Breiðafjarðarfléttan hélt nýlega annan vinnufund ársins um tækifærin í vetrarferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum, Reykhólum, Dölum og Snæfellsnesi. “Fundurinn, sem haldinn var um síðustu helgi á Bíldudal, markaði upphafið af vöruþróun vetrarferða innan klasans. Byrjað var að greina núverandi framboð á þjónustu og afþreyingu að vetri, hvaða náttúruperlur eru aðgengilegar að vetri og á grundvelli þess að þróa nokkurra daga vetrarferðir á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum. Vöruþróun vetrarferða á Vesturlandi og Vestfjörðum er í samstarfi við Sæferðir og ferðaskrifstofuna Safaris sem skipuleggur ævintýraferðir á 4*4 bílum.
Svæðið hefur til þessa ekki verið þekkt fyrir vetrarferðaþjónustu,” segir Guðrún Eggertsdóttir atvinnuráðgjafi á Vestfjörðum sem jafnframt er verkefnisstjóri klasans.
Svæði Breiðafjarðarfléttunnar státar af mikilli náttúrufegurð og fjölbreyttum afþreyingarmöguleikum að vetri. Nefnir Guðrún þar heitar náttúrulaugar, ísklifur, snjóklifur, hellaskoðun, fjölbreyttar gönguleiðir, gönguskíðaleiðir, vélsleðaferðir, náttúruleg skautasvell, vetrarleiki, hestaferðir og margt fleira. Á svæðinu er fjölbreytt menningarlíf, sagnameistarar, sagnaslóðir, menningarperlur, söfn og setur. Fjölbreyttir veitingastaðir með svæðisbundinn mat og skemmtileg nýsköpun í matvælaframleiðslu í bland við upprunalegar íslenskar matarhefðir. Sem sagt fjölbreytt íslensk menning og náttúra sem ferðamenn hafa áhuga á að upplifa á Íslandi að vetri.
Lenging ferðatímans
Mikill áhugi er meðal ferðaþjónustuaðila innan klasans að lengja ferðamannatímann og nýta betur fjárfestingu, mannafla og þekkingu til að skapa fleiri heilsársstörf í ferðaþjónustunni. “Tækifærin eru fjölmörg á svæðinu m.a. fyrir 4*4 jeppaferðir með litla og meðalstóra hópa að vetri. Fjarlægðin frá höfuðborginni er um tveggja tíma akstur, aðgengi að svæðinu er gott og með ferðum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs eru sunnanverðir Vestfirðir aðgengilegir þrátt fyrir oft slæma færð á vegum landleiðina og tilfallandi ófærð á fjallvegum. Ferjan er tengingin milli svæðanna og skapar fjölbreyttari möguleika þeirra sem vilja ævintýraferðir með 4*4 bílum,” segir Guðrún að endingu.
Þeir sem hafa áhuga á samstarfi er bent á að hafa samband við Guðrúnu Eggertsdóttur verkefnastjóra Breiðafjarðarfléttunnar hjá gudrun@atvest.is