27. mars. 2010 01:26
“Það er skylda stjórnvalda, þar á meðal sveitarfélaga, að búa svo í haginn að öllum sé tryggð góð og örugg þjónusta,” segir m.a. í ályktun aðalfundar Kjalar sem haldinn var sl. fimmtudag á Akureyri. Þá er bent á að þjóðin vinnur sig ekki út úr því erfiða efnahagsástandi sem nú ríkir með því að rústa almannaþjónustunni. Góð almannaþjónusta sé öflugasta tækið til að reisa við efnahagslífið.
Kjalar er stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu. Á aðalfundinum var lýst miklum áhyggjum yfir þeirri þróun sem nú á sér stað. “Verðbólgan er aftur komin á skrið, skuldabyrði heimilanna eykst, kaupmáttur heldur áfram að rýrna og atvinnuöryggi minnkar. Á sama tíma er ljóst að áframhaldandi niðurskurður á velferðarþjónustunni er fyrirhugaður hjá ríki og sveitarfélögum.
Aðalfundurinn tekur undir ályktanir félagsfunda í Borgarnesi og á Siglufirði þar sem kallað er eftir betra siðferði, nýjum áherslum og gegnsæjum og lýðræðislegum stjórnarháttum og er skorað á ríkisstjórn að vinna fyrir alla sína þegna og gæta þess að hagur fjármagnseigenda sé ekki settur ofar hag heimilanna í landinu. “Aukið atvinnuleysi er mikið áhyggjuefni og samfélaginu dýrt. Uppsagnir starfsmanna í opinberri þjónustu draga úr samfélagsþjónustu, grunnþjónustu við börn, unglinga og eldra fólk sem við þessar aðstæður er mikilvægari en nokkru sinni. Það er skylda stjórnvalda, þar á meðal sveitarfélaga, að búa svo í haginn að öllum sé tryggð góð og örugg þjónusta.”