30. mars. 2010 08:01
Stjörnum prýtt stórlið KR úr Vesturbænum mætti Skagamönnum í æfingaleik sl. laugardag í Akraneshöllinni. ÍA-liðið bar sigur úr býtum, 2:1, og þótti leika agaðan og góðan leik á móti Vesturbæjarstórveldinu sem margir spá miklum frama í komandi Íslandsmóti. Leikurinn var verðugt verkefni fyrir ungu Skagastrákana og góð reynsla. Í hálfleik var staðan 1:0 fyrir ÍA, en í seinni hálfleik skoraði hvort lið eitt mark þannig að sigurinn féll heimamönnum í skaut. Framherjinn ungi í Skagaliðinu Fannar Freyr Gíslason komst inn í sendingu KR -inga, sólaði markmanninn laglega og setti boltann í netið. Þetta var á 22. mínútu leiksins. Björgúlfur Takefusa jafnaði leikinn fyrir KR í seinni hálfleiknum en það var síðan Arnþór Kristinsson sem renndi sér inn í vítateig KR-inga og lagði boltann laglega í netið. Arnþór kláraði þar með leikinn fyrir heimamenn, 2:1, fjölmörgum áhorfendum til óblandinnar gleði.