30. mars. 2010 11:05
Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundum sínum í síðustu viku að fara að tilmælum lögreglustjórans á Akranesi að lengja ekki opnunartíma skemmtistaða á Akranesi um páskana, en beiðni barst þess efnis. Embætti lögreglustjóra lagðist gegn lengingu opnunartíma aðfararnótt Pálmasunnudags, það er aðfararnætur síðasta sunnudags, og aðfararnætur Skírdags. Hins vegar gerir embættið ekki athugasemd við lengri opnunartíma eins og venja hefur verið að kvöldi Föstudagsins langa, það er aðfararnótt laugardagsins í páskavikunni né á páskadagskvöld. Í svari frá lögreglustjóra vegna fyrrgreindrar beiðni um lengingu opnunartíma skemmtistaða vill embættið koma því á framfæri að fjárhagur lögreglunnar er mjög þröngur. Þess vegna feli lenging opnunartíma í sér umtalsverðan kostnað, sem ekki er gert ráð fyrir í rekstraráætlun embættisins.