06. apríl. 2010 08:04
 |
Flatey á Breiðafirði. Ljósm. Mats Wibe Lund. |
Landhelgisgæslunni barst laust eftir miðnætti aðfararnótt sl. laugardags tilkynning um torkennilegt ljós eða eld suður af Flatey á Breiðafirði. Samkvæmt fjareftirlitskerfum voru engir bátar á svæðinu. Þegar ljósið hvarf ekki var ákveðið að kalla út björgunarbát frá Rifi til að kanna málið. Fram kemur á heimasíðu Landhelgisgæslunnar að varðskipið Týr sem statt var á Breiðafirði hafi einnig haldið til leitar. Þá hófu björgunarsveitir á norðanverðu Snæfellsnesi athugun á hvort einhverja báta vantaði. Varðskipið sigldi um nóttina og fram á morgunn um svæðið suður og suðvestur af Flatey án þess að nokkurs óeðlilegs yrði vart. Ekki var vitað um neinar skipaferðir á svæðinu á umræddum tíma og heldur ekki um mannaferðir í eyjum. Leit var hætt snemma um morguninn og talið líklegt að um villuljós úr landi hafi verið að ræða.