08. apríl. 2010 01:34
Samkvæmt talningu Ferðamálastofu fóru 26 þúsund erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð í mars síðastliðnum og hafa ferðamenn aldrei verið fleiri í þessum mánuði. Árið 2009 voru þeir tæplega 24 þúsund í sama mánuði. Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá aukningu frá öllum mörkuðum nema Norðurlöndunum. Bretum fjölgar verulega eða um ríflega fimmtung, N-Ameríkönum um 11%, gestum frá Mið- og S-Evrópu um tæp tíu prósent og gestum frá öðrum markaðssvæðum um tæp 11%. Frá áramótum hafa 65 þúsund erlendir gestir farið frá landinu sem er fimm prósenta aukning frá árinu áður. Fjórðungur gesta er frá Bretlandi, fjórðungur frá Norðurlöndunum, tæplega fimmtungur frá Mið- og S-Evrópu, svipað hlutfall frá öðrum markaðssvæðum og 12% frá Norður Ameríku. Tæplega fjórðungsaukning er í brottförum Íslendinga í mars, voru 21.600 í mars 2010 en 17.600 árið áður. Brottförum Íslendinga frá áramótum hefur fjölgað um 14% í samanburði við sama tímabil á fyrra ári.