10. apríl. 2010 12:09
 |
Byggð verða 32 ný hjúkrunarrými við DAB í Borgarnesi. |
Ríkið hefur tryggt fjármögnun vegna uppbyggingar um 360 hjúkrunarrýma í níu sveitarfélögum, þar á meðal byggingu 32 hjúkrunarrýma við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi, og eru samningar við sveitarfélögin á lokastigi. Í tilkynningu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu í gær segir að þar sem undirbúningur verkefna er lengst kominn geti framkvæmdir hafist á næstu mánuðum, en annarsstaðar á seinni hluta þessa árs eða á næsta ári. Gert er ráð fyrir að undirbúningur vegna framkvæmda í Borgarnesi sé kominn hvað lengst en á næstu dögum verður samkvæmt heimildum Skessuhorns gengið frá samningi um að DAB hafi umsjón með verkinu fyrir hönd Borgarbyggðar sem síðan gerir samninginn við ríkið.
Kostnaður vegna framkvæmdanna í öllum níu sveitarfélögunum er áætlaður um 9 milljarðar króna. Íbúðalánasjóður mun veita 100% lán til framkvæmdanna en kostnaður skiptist þannig að ríkið ber 85% áætlaðs byggingarkostnaðar og sveitarfélögin 15%. Fyrirhuguð uppbygging hjúkrunarrýma mun leiða af sér um 1.200 ársverk. Um 300 hjúkrunarrými verða tekin úr notkun en átakið leiðir til þess að hjúkrunarrýmum mun fjölga um 60.