12. apríl. 2010 02:04
ÍA-liðið í knattspyrnu tapaði sínum fyrsta leik í vetur, þegar það lá fyrir Grindvíkingum í deildarbikarkeppninni 0:2 í Reykjaneshöllinni á laugardaginn. Þórður Þórðarson þjálfari Skagamanna var einkar óhress með fyrri hálfleikinn í Grindavík, sem hann sagði vera það slakasta sem liðið hefði sýnt í vetur og í raun hafi það verið lúsheppið að vera einungis 0:1 undir í hálfleik. Allt annað var að sjá til Skagamanna í seinni hálfleiknum þar sem þeir fengu m.a. tvö dauðafæri, en var síðan refsað af heimamönnum með marki undir lokin. „Við eigum einn leik eftir í deildarbikarnum gegn Þór á Akureyri næsta laugardag. Við þurfum a.m.k. að ná í stig þar til þess að vera öruggir áfram,“ sagði Þórður.
Hjörtur Hjartarson kom aftur inn í leikmannahópinn eftir meiðsli og lék fyrri hálfleikinn gegn Grindvíkingum. Guðjón Heiðar Sveinsson var ekki með sökum veikinda. Árni Thor Guðmundsson er byrjaður að æfa að nýju eftir meiðsli en aðeins lengra er í Heimi Einarsson, en meiðsli hans hafa reynst erfiðari en áætlað var. Þá er Guðmundur Böðvar Guðjónsson á góðum batavegi eftir fótbrot og gæti komið inn í leikmannahópinn að nýju í lok maí, að sögn Þórðar þjálfara.