13. apríl. 2010 11:36
Ferðafélag Íslands er með verkefni í gangi sem nefnist Eitt fjall á viku. Í því er stefnt að göngu á 52 fjöll á árinu. Þátttakendur í þessu verkefni eru um 150 og er skipt í þrjá hópa, Vesturbær Rvk, Austubær Rvk og svo Þorparar sem eru þeir sem búa utan Reykjavíkur og koma þátttakendur víða að, allt frá Vík í Mýrdal og upp á Akranes. Þorparar hafa gengið á ýmis fjöll í nágrenni Reykjavíkur og var Akrafjallið það fjórtánda í röðinni, en þangað var gengið síðasta fimmtudag. Veðrið á Akrafjalli var gott til göngu. Farið var á Háahnúk og á leiðinni sögðu heimamenn frá fjallinu og umhverfi þess. Sagðar voru sögur af skessunni Jóku sem bjó á Snæfellsnesi og þrátt fyrir mörg falleg fjöll þar vildi hún meira og sótti sér fjall á Suðurland en komst ekki lengra því að sólin kom upp áður en hún náði heim aftur. Lenda oft í þessu skessurnar. Einnig voru sagðar sögur af útilegumönnum og fleiru sem tengist fjallinu.
Þegar niður var komið var ákveðið að ganga inn í Pytta og skoða leyfar af flaki flugvélar sem fórst í fjallinu árið 1955. Ferðin í heild tók um þrjá tíma og var fólk almennt mjög ánægt með gönguferðina. Höfðu margir á orði að þeir þyrftu að koma aftur til að fara á Geirmundartind og jafnvel ganga hringinn á fjallinu. Að lokum var svo farið í sund í Bjarnalaug þar sem heimamenn buðu upp á heitt súkkulaði, vöfflur og kökur. Þorparar stefna á Hvannadalshnúk í maí og Snæfellsjökul í júní. Verkefninu lýkur svo formlega á gamlársdag.