14. apríl. 2010 10:01
Þann 1. maí næstkomandi verður Þorpið við Hótel Glym í Hvalfirði formlega vígt. Þarna er um að ræða sex heilsárshús, sérhönnuð í tveimur stærðum og innréttuð á vandaðan hátt með áherslu á samræmi í umhverfi, litum og aðbúnaði. Um páskana gafst gestum kostur á að skoða húsin. Ekki fór á milli mála að vandað hefur verið til byggingar húsanna. Þau eru afar vel búin, öll með alrými sem er ríkulega búið með leðursófasetti, stórum flatskjá og listaverkum. Eldhús er fullbúið með nýjustu tækjum og borðbúnaði fyrir 4 – 6 gesti. Svefnherbergin eru stór með sérhönnuðum RB rúmum auk þess sem í hverju herbergi eru t.d. leðurstólar og borð ásamt flatskjám. Gengið er inn í baðherbergin úr svefnherbergjum og þaðan út í heita potta á rúmgóðri verönd mót suðri með grillaðstöðu, útihúsgögnum, öryggiskerfi og þráðlausri nettengingu.
Að sögn Hansínu B Einarsdóttur hótelstjóra á Glym er um viðbót í gistimöguleikum hótelsins að ræða. Húsunum verður þjónað af starfsfólki hótelsins, þau þrifin daglega og leigð út með uppábúnum rúmum, sloppum og handklæðum. Þeir sem leigja húsin geta síðan keypt alla þjónustu af hótelinu, svo sem morgun- og kvöldverð, barþjónustu eða haldið þar stærri veislur.