15. apríl. 2010 09:31
“Endilega segðu að ég sé fjórum sinnum tuttugu ára eða áttatíu ára gömul, ekki segja áttræð, það hljómar ekki eins vel,” sagði frú Vigdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands í viðtali í útvarpinu í morgun. Hún er 80 ára gömul í dag, er fædd 15. apríl 1930. Í dag verður sérstök hátíðardagskrá í Háskóla Íslands þar sem Vigdís verður sæmd heiðursdoktorsnafnbót hjá deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Hugvísindasvið skólans. Athöfnin hefst kl. 11 í Hátíðasal HÍ og er öllum opin. Einnig verður efnt til hátíðardagskrár í Háskólabíói í dag. Verður húsið opnað kl. 15:30 og boðið upp á kaffi. Dagskráin hefst klukkan 16:30 og er opin öllum á meðan húsrúm leyfir. Útvarpað og sjónvarpað verður beint frá athöfninni og því verður lokað inn í salinn kl. 16.20.