15. apríl. 2010 04:26
Aðalfundur Lögreglufélags Vesturlands sem haldinn var í Borgarnesi í gær mótmælir sinnuleysi samninganefndar ríkisins gagnvart samninganefnd Landssambands lögreglumanna. “Skorar Lögreglufélag Vesturlands á samningsaðila að setjast niður og ná samkomulagi um nýjan kjarasamning fyrir lögreglumenn. Hafa lögreglumenn nú verið samningslausir í rúmlega 300 daga en sinnt skyldum sínum á þeim tíma af mikilli kostgæfni. Áhyggjur lögreglumanna stigmagnast með hverjum deginum og er tilfinning lögreglumanna að stjórnvöld sýni okkur ekki þá virðingu sem okkur ber með því áhugaleysi sem okkur er sýnt,” segir í upphafi ályktunar félagsins.
Hvetja lögreglumenn á Vesturlandi dóms- og mannréttindamálaráðherra og fjármálaráðherra til að beita sér fyrir því að samið verði við lögreglumenn sem allra fyrst eða þeim veittur verkfallsréttur að nýju.
Á aðalfundinum var einnig ályktað um þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpi dóms- og mannréttindamálaráðherra. Höfðu fundarmenn áhyggjur af því að stöðum lögreglumanna verði fækkað með sameiningu lögregluembætta á Vesturlandi og Vestfjörðum þó svo að samnýting á mannskap sé ekki raunhæf vegna vegalengda og aðstæðna. “Lögreglufélag Vesturlands vill benda á að ekki hafi verið reiknað út hagkvæmni þess að sameina lögregluembætti á Vesturlandi og Vestfjörðum. Félagið telur aftur á móti sameiningu lögregluembætta á Vesturlandi eðlilega og hafa ákveðna kosti. Fundarmenn telja einnig að ákveðin kjaraskerðing hljótist af sameiningunni þar sem stöðum yfirmanna á að fækka og þar með möguleikum lögreglumanna að vinna sig upp í starfi.
Fundurinn vildi einnig hvetja forystumenn sveitarfélaga á Vesturlandi og Vestfjörðum til að beita sér fyrir óbreyttum fjölda lögreglumanna og óbreyttum fjölda starfsstöðva í nýju embætti,” segir að endingu í ályktun Lögreglufélags Vesturlands.