16. apríl. 2010 12:48
Fulltrúar stéttarfélaga starfsmanna Norðuráls og fyrirtækisins luku í gærkvöldi 13 tíma samningalotu í húsnæði Ríkissáttasemjara án þess að samningar næðust. Að því hafði þó verið stefnt. Enn ber töluvert á milli í launalið viðsemjenda, samkvæmt upplýsingum frá Vilhjálmi Birgissyni formanni VLFA og samninganefndar. Hann segir þó að nokkur mikilvæg réttindamál hafi áunnust í samningalotu gærdagsins. Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar næstkomandi mánudag klukkan 09:00. “Það er öllum ljóst, bæði samninganefnd fyrirtækisins, samninganefnd stéttarfélaganna og Ríkissáttasemjara, að úrslitatilraun um hvort samningsaðilar leysa þessa deilu eður ei mun verða gerð á mánudaginn,” segir Vilhjálmur sem sjálfur segist ekki bjartsýnn á að lausn náist í deilunni þá.