18. apríl. 2010 03:18
 |
Gervitunglamynd sem sýnir þéttan gosmökkinn frá eldstöðvunum. |
Mikið og gott lið björgunarsveitarmanna er í dag að störfum á svæðinu í nágrenni Eyjafjallajökuls. Helsta verkefni er að aðstoða bændur og aðra eigendur hrossa við að koma skepnum í hús, eða flytja þau burt af svæðinu. Meðal þeirra sem leggja hönd á plóg er á þriðja tug björgunarsveitarmanna af Vesturlandi, frá björgunarsveitum á Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði. Þá hafa félagar í Björgunarfélagi Akraness auk þess verið síðustu daga að störfum á svæðinu meðal annars með brynvarða bílinn, sem gengur undir nafninu Talibaninn. Bíll sá er meðal annars þeim hæfileikum gæddur að ryk kemst ekki eins auðveldlega inn í hann og aðra bíla. Því er hann góður við þær erfiðu aðstæður þar sem þéttur öskumökkur leggst eins og mara yfir allt. Samkvæmt heimildum Skessuhorns eru aðstæður mjög erfiðar á þessum slóðum. Erfitt er að setja sig í spor íbúa sem búið hafa við stöðugan ótta um margra daga skeið þegar yfirvofandi ógn steðjar að af völdum flóða og öskufalls þannig að svartara er yfir að líta en um miðja nótt. Því er fagnaðarefni hversu vel björgunarsveitarmenn af Vesturlandi sem og annarsstaðar hafa brugðist við hjálparbeiðni.