19. apríl. 2010 03:22
Um síðustu helgi var Vesturlandsmótið í tvímenningi spilað á Mótel Venusi með þátttöku 14 para. Efstir urðu Baldur Bjartmarsson og Sigurjón Karlsson með 59% skor en þar sem þeir spiluðu sem gestir á mótinu var parið í öðru sæti jafnframt Vesturlandsmeistari í tvímenningi. Það voru þeir félagar úr Hvalfjarðarsveitinni; Guðmundur Ólafsson og Hallgrímur Rögnvaldsson sem höfðu 54,5% skor. Í öðru sæti urðu Halldór Þorvaldsson og Magnús Sverrisson, Sveinn Ragnarsson og Óli Björn Gunnarsson þriðju en Ásmundur Örnólfsson og Páll Ágúst Jónsson fjórðu. Þeir félagar Guðmundur og Hallgrímur gerðu það ekki endasleppt í vikunni sem leið því þeir unnu einnig aðaltvímenning Briddsfélags Akraness en þeirri keppni lauk síðastliðinn fimmtudag.
Í öðru sæti á Skaganum urðu Ingi Steinar og Óli Grétar, Unnsteinn og Jón urðu þriðju, Alfreð Þ og Karl Ó fjórðu og Þórður ásamt Alfreð Viktorssyni fimmtu.
Í kvöld hefst Opna Borgarfjarðarmótið í bridds í Logalandi. Annað kvöld keppninnar verður spilað á Mótel Venusi í Hafnarskógi mánudaginn 26. apríl en síðasta kvöldið í keppninni verður á Akranesi fimmtudaginn 29. apríl.