19. apríl. 2010 04:06
Spennan er nú að magnast upp fyrir fyrstu úrslitaviðureign Snæfells og Keflvíkinga sem verður í Reykjanesbænum í kvöld. Snæfellsliðið er svolítið lemstrað eftir síðasta leikinn á móti KR-ingum í Vesturbænum sl. miðvikudagskvöld. Ingi Þór Steinþórsson segir að aðeins sé þó vafi á því hvort Sean Burton bandaríski leikstjórnandinn og skyttan geti spilað, en hann tognaði á ökkla í leiknum. Það ræðst ekki fyrr en í upphituninni í kvöld hvort Burton verði með og vissulega yrði það skarð fyrir skildi ef þessi sterki leikmaður verður fjarri góðu gamni.
Þessa stundina eru margir Hólmarar á leiðina til Keflavíkur og ætla að fylgjast með leiknum, en stuðningsmenn Snæfells hafa verið öflugir í úrslitakeppninni til þessa og hyggjast ekkert gefa eftir.