23. apríl. 2010 10:01
“Ferðamálasamtök Íslands fagna áformum stjórnvalda um að koma til móts við bændur vegna þess skaða sem þeir hafa orðið fyrir af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli. Fleiri atvinnugreinar hafa skaðast og ferðaþjónustan þar á meðal,” segir í tilkynningu frá Ferðamálasamtökunum. Þá segir að flugfélögin beri þar þyngstu byrðarnar en mikil óvissa ríkir hjá flestum öðrum ferðaþjónum um áhrifin á komandi sumar. “Ferðamálasamtökin lýsa ánægju með frumkvæði iðnaðarráðherra að stofna samráðnefnd um upplýsingamiðlun vegna náttúruhamfaranna en nefndin hefur unnið mikið og gott starf. Samtökin hvetja til öflugs uppbyggingarstarfs í þágu greinarinnar eftir þessi áföll og benda á að nú ætti að endurskoða áform um hvers kyns skatta og gjaldtöku á ferðaþjónustufyrirtæki sem myndi létta þeim róðurinn næstu mánuði.”