26. apríl. 2010 10:01
Haförn er nú orpinn í eyju við innanverðan Breiðafjörð og ætti ungi eða ungar að vera skriðnir úr eggjum eftir um mánuð ef varpið misferst ekki. Í gegnum vef Reykhólahrepps er hægt að fylgjast með arnarvarpinu í beinni útsendingu um vefmyndavél, en hjónin á Gróustöðum við Gilsfjörð, þau Bergsveinn Reynisson og Signý Jónsdóttir, létu setja upp vefmyndavélina fyrir tveimur árum sem hluta af verkefninu Arnarsetur Íslands. Fyrsta formlega útsendingin frá arnarhreiðrinu var í fyrravor og fylgdust þá þúsundir manna með varpinu. Assan verpti þá tveimur eggjum en þau reyndust ófrjó.