26. apríl. 2010 11:50
Enn eru tímamót hjá Félagi leikskólakennara sem hélt upp á sextíu ára afmæli sitt fyrr á árinu. “Þann 30. apríl næstkomandi verður haldinn auka aðalfundur á Grand Hótel í Reykjavík þar sem lögum félagsins verður breytt vegna þess að stjórnendur leikskóla stofna sérstakt félag sama dag, Félag stjórnenda leikskóla (FSL). Nýja félagið verður við hlið FL og annarra félaga kennara og skólastjórnenda innan Kennarasambands Íslands,” segir í fréttatilkynningu. Á auka aðalfundinum verður kosið í nýja stjórn FL og nýr formaður tekur við af Björgu Bjarnadóttur sem hefur verið í forystu félagsins í rúm tuttugu ár og þar af formaður í fjórtán ár.
Félag stjórnenda leikskóla verður stofnað eftir hádegi sama dag á Grand Hótel. Í hinu nýja félagi verða leikskólastjórar og aðstoðarleikskólastjórar ásamt leikskólafulltrúum og ráðgjöfum. Á stofnfundinum verður kosinn formaður og einnig í önnur trúnaðarstörf. Eftir breytingarnar verða félagsmenn í Félagi leikskólakennara um 1900 og í Félagi stjórnenda leikskóla verða félagsmenn um 520. Yfirskrift beggja funda er: „Tvö félög – ein rödd“. Hún á að undirstrika þá sýn sem verður höfð að leiðarljósi í samstarfi félaganna í framtíðinni.