26. apríl. 2010 02:25
Vel á annað hundrað gesta lögðu leið sína inn í Hvalfjörð á sumardaginn fyrsta en þá fór fram formleg vígsla gömlu brúarinnar yfir Bláskeggsá, en hún er ofan við Hvalstöðina og Þyril. Áin er á mörkum jarðanna Litla-Sands og Þyrils. Auk þess var vígt upplýsingaskilti um brúna en að því er hægt að aka þaðan sem stuttur spölur er að brúnni. Það voru Kristján L. Möller samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri sem vígðu brúna en endurgerð hennar var samvinnuverkefni Hvalfjarðarsveitar, Fornleifaverndar ríkisins og Vegagerðarinnar. Bláskeggsárbrú var byggð árið 1907 og var brautryðjendaverk, fyrsta steinsteypta brúin á Íslandi utan Reykjavíkur.
Hún var breikkuð og styrkt eftir að bílaöld rann upp og var í notkun fram til ársins 1951. Frá því á aldarafmæli brúarinnar hefur verið unnið að því að koma henni í sem næst upprunalegt horf og er því verki nú lokið.
Nánar verður sagt frá vígslunni og sögu brúarinnar í Skessuhorni sem kemur út á miðvikudaginn.