29. apríl. 2010 09:01
Systkinin Hafþór Ingi og Íris Gunnarsbörn voru valin bestu leikmenn tímabilsins á uppskeruhátíð körfuknattleiksdeildar Skallagríms sem fram fór á B-57 í Borgarnesi að kvöldi síðasta vetrardags. Körfuknattleikstímabilinu lýkur formlega hjá Skallagrími í byrjun maímánaðar með uppskeruhátíð yngri flokka en um leið verður haldið mót fyrir þau yngstu, að sögn Pálma Blængssonar formanns körfuknattleiksdeildar.
Á uppskeruhátíð meistaraflokkanna voru veittar viðurkenningar fyrir árangur og ástundun í vetur. Hjá körlunum var Trausti Eiríksson valinn mikilvægasti leikmaðurinn, Óðinn Guðmundsson mesti baráttumaðurinn og Davíð Guðmundsson þótti sýna mestu framfarirnar.
Hjá konunum var Gunnhildur Lind Hansdóttir talin mikilvægasti leikmaðurinn, Helena Hrund Ingimundardóttir fékk viðurkenningu fyrir mestu baráttuna og Hugrún Eva Valdimarsdóttir þótti sýna mestu framfarirnar í vetur.
Sjá fleiri myndir Siggu Leifs af Uppskeruhátíð í Skessuhorni vikunnar.