29. apríl. 2010 01:16
Mokveiði hefur verið hjá dragnótarbátum í Snæfellsbæ og vegna kvótaskorts eru dagarnir fáir á sjó. Sveinbjörn Jakobsson SH 10 var að landa 10 tonnum á þriðjudaginn og var það þriðji dagurinn á sjó í apríl. Egill skipstjóri og útgerðarmaður sagði að það yrði stoppað fram að mánaðamótum vegna kvótaleysis og að restin yrði tekin í maí svo strákarnir hefðu eitthvað kaup þá. Sömu sögu er að segja af flestum hinna dragnótarbátanna sem hafa einnig farið þrjá róðra í apríl og taka svo restina í maí. Steinunn SH hefur reyndar farið sex róðra og sem dæmi um fiskeríið þá tóku þeir í vikunni rúm 80 tonn á þremur dögum og var uppistaðan þorskur. “Einn til þrír róðrar í viku er einsdæmi. Að fara á sjó á mánudegi og fara svo í helgarfrí á meðan allt er fullt af fiski er grátlegt,” var samdóma álit þeirra skipverja sem fréttaritari ræddi við.
Útlit er fyrir að næsta vertíð verði svipuð vegna skerðingar á aflaheimildum en óttast menn að ýsukvótinn verði skorinn enn frekar niður. Var sú ákvörðun stjórnvalda fyrir nokkrum árum að auka ýsukvótann í 90 þúsund tonn glórulaus á sama tíma og hólf voru opnuð og veiði inn á fjörðum var leyfð og stærð undirmáls ýsunnar lækkuð. Óttast menn að nú sé afleiðingin af þessu að koma í ljós þar sem lítið af ýsu virðist vera á svæðinu ef ekki algert hrun í stofninum. Því er hætta á að næsta vertíð verði ekki svipur hjá sjón hjá kvótalitlum útgerðum.