Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. maí. 2010 08:01

Samningar undirritaðir vegna stækkunar DAB í Borgarnesi

Í gær var í Borgarnesi skrifað undir samninga vegna fyrirhugaðrar byggingar 32 hjúkrunarrýma við Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Fyrst skrifuðu Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra og Páll S Brynjarsson sveitarstjóri undir samning um að Borgarbyggð taki að sér verkefnið fyrir hönd ríkisins. Þannig verður Borgarbyggð framkvæmdaaðili en að dvalarheimilinu standa auk þess Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur og Samband borgfirskra kvenna. Eftir að Borgarbyggð hafði formlega tekið við verkefninu var stjórn DAB falin byggingarstjórnun með sérstökum samningi þar um.

Ekki er ofsögum sagt að með þessari ákvörðun hilli undir langþráðan áfanga því núverandi húsakostur heimilisins er kominn til ára sinna og stenst ekki almennar kröfur um stærð og aðbúnað heimilisfólks. Nú munu vera 11 ár síðan fyrst var farið að ræða stækkun heimilisins. Minnstu einmenningsherbergi á DAB eru um 11 fermetrar og án salernisaðstöðu sem heimilisfólk þarf því að deila með mörgum öðrum. Þá er tvíbýlt á mörgum herbergjum. Fjölgun hjúkrunarrýma þýðir ekki fjölgun dvalarrýma í heild því eftir að nýbyggingin verður risin er gert ráð fyrir að eldra rými verði breytt og endurbætt og lagfært að nútíma kröfum.

Nýbygging DAB verður 2500 fermetrar á þremur hæðum og er grunnflötur byggingarinnar um 850 fermetrar. Hún tengist eldra húsinu við Ánahlíð. Það er Einar Ingimarsson arkitekt sem hefur teiknað nýbygginguna og liggja nú allar teikningar fyrir, staðfestar af skipulags- og byggingarnefnd og útboðshæfar. “Við leggjum mikla áherslu á að skapa öldruðum betri aðstöðu og verður þessu verki því flýtt eins og kostur er,” sagði Magnús B Jónsson formaður stjórnar DAB í samtali við Skessuhorn. Hann segir að byggingartími hússins sé áætlaður tvö ár og því megi reikna með að síðla árs 2012 verði framkvæmdum lokið. “Það kemur í ljós á næstu vikum hvernig fyrirkomulag verksins verður. Hér vill þannig til að fyrirtækjum í byggingastarfsemi skortir verkefni og minnkar það líkurnar á að farið verði í opið útboð. Við viljum því frekar að þessi nýbygging bæti verkefnastöðu þeirra byggingafyrirtækja sem í héraðinu starfa,” segir Magnús sem bætir því við að stefnt sé að fyrstu skóflustungu 10. júní næstkomandi og að framkvæmdir hefjist strax í næsta mánuði.

 

Meðfylgjandi mynd var tekin eftir að samningar höfðu verið undirritaðir. Þá þótti við hæfi að taka eitt traust handarband. Á myndinni eru ráðherra, stjórn DAB, sveitarstjóri og framkvæmdastjóri DAB. F.v. Páll S Brynjarsson, Guðsteinn Einarsson, Sæunn Oddsdóttir, Jón G Guðbjörnsson, Þór Þorsteinsson, Magnús B Jónsson, Árni Páll Árnason og Björn Bjarki Þorsteinsson.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is