04. júní. 2010 07:01
Eins og önnur sjávarpláss heldur Snæfellsbær sjómannadaginn hátíðlegan á sunnudaginn. Hefst skemmtunin á laugardeginum kl. 13 í Rifshöfn en þar verður þrautakeppni áhafna, koddaslagur, lyftarakeppni, stakkasund, brettahlaup og fleira. Firmakeppni verður í körfubolta á vegum fiskmarkaðarins og þá verður opið hús hjá björgunarsveitinni Lífsbjörgu sem verður með léttar veitingar og lifandi tónlist. Gamla Rif kaffihús verður einnig opið. Skemmtisigling verður farin ef veður leyfir.
Á sunnudeginum verður sjómannamessa á Ingjaldshóli kl. 10 og hátíðardagskrá í sjómannagarðinum á Hellissandi kl. 13. Þar verður farið með hátíðarræðu og aldraður sjómaður heiðraður. Einnig verður verðlaunaafhending og leikir og sprell. Þá verður hin árlega kaffisala hjá slysavarnadeild Helgu Bárðardóttur á sínum stað í Röstinni kl. 15.