04. júní. 2010 08:01
Sjómannadagurinn verður haldinn hátíðlegur í Grundarfirði um helgina sem og annarsstaðar í sjávarplássum. Það eru nokkrir ungir Grundfirðingar sem sjá um dagskrána að þessu sinni, þar á meðal Jón Frímann Eiríksson sem Skessuhorn ræddi við. Hann segir að dagskráin hefjist á föstudeginum með hinu árlega golfmóti G.Run. Á laugardeginum verða farnar skemmtisiglingar í boði útgerða og síðan hefst hátíðardagskrá á bryggjunni kl. 13.30. Þar verður keppni milli áhafna, vinnustaða og saumaklúbba en keppt verður í brautinni frægu, bætningu og pokahnút. Seinni part dags, eða klukkan 16, verður knattspyrnuleikur á Grundarfjarðarvelli, en þar eigast við Grundarfjörður og KB. Þetta er jafnframt fyrsti heimaleikur hins nýskipaða Grundarfjarðarliðs.
Um kvöldið verður síðan dansleikur á Kaffi 59. Á sunnudaginn verður messa í Grundarfjarðarkirkju þar sem sjómenn verða heiðraðir, en að henni lokinni verður kvenfélagið Gleym mér ei með kaffisölu. Jón Frímann segist hlakka til að sjá sem flesta taka þátt í viðburðunum og þakkar sjómannadagsráð útgerðum bæjarins kærlega fyrir stuðninginn.