04. júní. 2010 10:14
Skagamenn unnu sinn fyrsta leik í sumar þegar þeir lögðu Selfoss 2:1 í 32ja liða úrslitum Visa-bikarsins í gærkveldi, í leik sem fram fór á Akranesi. ÍA náði forystunni í leiknum á lokaandartökum fyrri hálfleiks. Andri Júlíusson fékk þá góða sendingu innfyrir flata vörn gestanna frá Arnari Má Guðjónssyni, lék á markmann Selfoss og skoraði. Reyndar var það úrvalsdeildarlið Selfoss sem var betra liðið í fyrri hálfleiknum og byrjaði seinni hálfleikinn betur. Náðu gestirnir að jafna strax á 5. mínútu seinni hálfleiks þegar Davíð Birgisson skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu. Skagamenn tóku við sér eftir jöfnunarmarkið og voru mun betra liðið það sem eftir var. Hirti J. Hjartarsyni mistókst að ná aftur forystunni fyrir ÍA þegar hann skaut framhjá úr vítaspyrnu á 69. mínútu. Vítið var dæmt eftir að Andri Júlíusson var felldur í teignum. Þetta kom ekki að sök því tíu mínútum síðar skoraði Andri Geir Alexandersson með hörkuskalla upp úr hornspyrnu.
Bæði lið fengu færi til að bæta við mörkum það sem eftir var en sigur Skagamanna var sanngjarn.
Dregið verður í 16-liða úrslitin um hádegisbil á mánudaginn. Annað Vesturlandslið, Víkingur Ólafsvík, er einnig í hattinum. Víkingar unnu KB í Breiðholtinu á miðvikudagskvöld 0:1 með marki Edin Beslija.