04. júní. 2010 02:30
Víkingur Ólafsvík er komið í 16 liða úrslit í VISA-bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir sigur á 3. deildar liðinu KB sem fram fór á miðvikudaginn. Leikurinn fór 0-1 en eina mark leiksins kom á 89. mínútu eftir glæsilega fyrirgjöf Sindra Más Sigurþórssonar á Edin Beslija sem skoraði með skalla. Það var lítið um færi í leiknum en heimamenn stilltu upp í fimm manna vörn sem Ólafsvíkingar áttu erfitt með að brjótast fram hjá. Markið kom þó á síðustu mínútu leiksins þegar allt virtist stefna í framlengingu. Víkingur Ó. byrjar sumarið af miklum krafti, komið áfram í VISA-bikarnum og eru með fullt hús stiga að loknum þremur umferðum í 2. deildinni.