06. júní. 2010 11:54
Veiði hófst í Norðurá í gærmorgun við erfiðar aðstæður. Vatn er lítið í ánni en eitthvað af laxi er þó genginn í hana. ,,Þetta var ágætt við þessar erfiðu aðstæður. Ég og konan fengum tvo laxa í Myrkhylnum og ég missti þann þriðja, hann var vænn sá sem slapp,” sagði Bjarni Júlíusson sem veiddi fyrsta fiskinn í Norðurá á þessu sumri, 80 sentimetra fisk. Veiðimenn reyndu víða í ánni en formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur byrjaði við Laxfossinn en lítið líf virtist vera þar. ,,Ég fékk högg hérna áðan en ekkert meira,” sagði Guðmundur Stefán við tíðindamann Skessuhorns. Guðmundur hélt ofar í ána, nánar tiltekið við Berghylsbortið, þar sem sást til tveggja laxa sem ekkert vildu. Með í för með Guðmundi var Bernhard A. Petersen.