07. júní. 2010 01:09
 |
Verðandi meirihlutafulltrúar og varamenn. |
Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og óháðir og Vinstrihreyfingin - grænt framboð munu skrifa undir stefnuyfirlýsingu nýs meirihluta Akraneskaupstaðar fyrir næsta kjörtímabil á Safnasvæðinu í Görðum í kvöld. “Nýr meirihluti í bæjarstjórn Akraness ætlar fyrst og fremst að taka fjármál bæjarins til gagngerrar endurskoðunar. Vandað verður til áætlunargerðar og ábyrgð og festa sýnd í fjármálastjórn,” segir í tilkynningu frá verðandi meirihluta. Flokkarnir eru sammála um að vinna í anda opinnar umræðu og fagmennsku. “Lögð er áhersla á að sem flestir komi að umræðum og ákvarðanatöku. Á fjölþættan hátt munu flokkarnir leita eftir viðbrögðum og ábendingum bæjarbúa, s.s. með hverfafundum, opnum fundum, viðtalstímum bæjarfulltrúa og tillögum á heimasíðu bæjarins í anda skuggaborg.is.
Lögð verður mikil áhersla á málefnakynningar svo að bæjarbúum gefist tækifæri til að setja sig inn í mál og hafa áhrif á niðurstöður. Gerð verður verkefnaáætlun sem inniheldur aðgerðarlista sem verður haldið lifandi og birtur á heimasíðu bæjarins. Fyrsta verkefni nýs meirihluta bæjarins verður að auglýsa eftir bæjarstjóra Akraneskaupstaðar í samvinnu við ráðningastofu.”