08. júní. 2010 11:25
Í gærkvöldi var skrifað undir nýtt meirihlutasamstarf Samfylkingar, Framsóknarflokks og óháðra og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á Akranesi. “Nýr meirihluti í bæjarstjórn Akraness ætlar fyrst og fremst að taka fjármál bæjarins til gagngerrar endurskoðunar. Vandað verður til áætlunargerðar og ábyrgð og festa sýnd í fjármálastjórn,” segir í yfirlýsingu frá nýja meirihlutanum. Fyrsta verkefni nýs meirihluta verður að auglýsa eftir bæjarstjóra í samvinnu við ráðningarstofu. Fulltrúar flokkanna munu skipta með sér verkum og eftir á að koma í ljós hverjir skipi formennsku í nefndum og ráðum. Samkomulag er innan meirihlutans um að fyrsta árið muni Sveinn Kristinsson gegna starfi forseta bæjarstjórnar og Guðmundur Páll Jónsson verði formaður bæjarráðs.