09. júní. 2010 09:02
Þessa dagana er umferð báta við landið meiri en í manna minnum og er hún rakin til strandveiðanna sem standa sem hæst, meðal annars frá höfnum á Vesturlandi. Í jaðri svæðisins í Reykhólahreppi er þó aðeins einn bátur á strandveiðunum eins og fram kemur á Reykhólavefnum. Þetta er báturinn Krummi í Árbæ af gerðinni Sómi 600 og er hann í eigu Þórðar Jónssonar og Ásu Stefánsdóttur. Tveir eru í áhöfn og heita báðir Þórður, þeir Þórður bóndi í Árbæ og Þórður frændi hans Sveinbjörnsson. Annars segir Þórður í Árbæ að búast megi við að aðrir komi þar líka við sögu eftir atvikum, jafnvel að hinir og þessir fari með í róður. Fáir dagar eru frá því róðrar hófust á Krumma og hefur verið lagt upp bæði á Brjánslæk og í Stykkishólmi, þó að heimahöfnin sé Staðarhöfn á Reykjanesi.