10. júní. 2010 10:01
Á sjómannadaginn fór Þórarinn Jónsson fyrrum bóndi á Hamri í Þverárhlíð í ferð á gamla Grána módel 1949, en Ferguson þennan hefur Þórarinn gert upp sem nýjan. Þetta er fyrsti traktorinn sem kom að Hamri. Hann var í búskapartíð Þórarins geymdur við bæinn og breitt yfir hann á hverju kvöldi og hlúð að honum eins og þarfasta þjóninum sæmi. Ferð sína hóf Þórarinn á Höll, ók fyrir Hallarmúlann og inn Norðurárdalinn, yfir Grjótháls og kom við á nokkrum bæjum. Að sjálfsögðu var áð á Hamri og þar tók Jóhannes bóndi Helgason á móti honum á öðrum öldungi frá árinu 1964.