Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
10. júní. 2010 02:35

Meirihlutasamkomulagið á Akranesi

Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og óháðir og Vinstri hreyfingin – grænt framboð mynduðu í upphafi vikunnar meirihluta fyrir næstu fjögur ár í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar. Í samningi flokkanna er farið yfir helstu áherslur þeirra.

Hér að neðan má lesa um áherslumál flokkanna:

 

 

 

 

 

Stjórnsýsla og fjármál

Taka á fjármál bæjarins til gagngerðrar endurskoðunar. Vandað verður til áætlunargerðar og ábyrgð og festa sýnd í fjársmálastjórn. Unnið verður að því að lagfæra skuldastöðu bæjarsjóðs, lágmarka fjármagnskostnað og afla tekna t.d. með því að koma út lausum lóðum og stuðla að aukinni atvinnu í bænum. Verkefnum verður forgangsraðað í því skyni að verja velferðarkerfið, styrkja samfélagsgerðina og treysta lífsskilyrði íbúanna.

Innkaupastefnu Akraneskaupstaðar verður fylgt og farið eftir reglum um útboðsmál. Þá verður skipurit Akraneskaupstaðar endurskoðað til að auka lýðræði og valddreifingu og skýra verkaskiptingu. Stofnaðar verða nefndir sem fjalla um tiltekna málaflokka. Þá segir að mikilvægt sé að halda virku sambandi við bæjarbúa og kanna reglulega viðhorf þeirra til margvíslegra málefna bæjarfélagsins. Það skal gert m.a. með íbúaþingi við gerð fjárhagsáætlunar. Auðvelda verður aðgengi að embættismönnum og kjörnum fulltrúum. Stofnuð verða hverfaráð, þar sem íbúarnir geti tekið ákvarðanir um þau málefni sem varða þeirra nærumhverfi.  Ef þriðjungur atkvæðisbærra manna óskar eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekin mál skal verða við því. Leitað verður eftir auknu samstarfi við nágrannasveitarfélög Akraness.

 

 

Markaðs- og atvinnumál

Styrkja skal starf markaðs- og atvinnufulltrúa og gera það enn skilvirkara og markvissara. Kynna skal fjölbreytni atvinnulífs á Akranesi til þess að bæjarbúar og aðrir landsmenn sæki í auknum mæli þjónustu til fyrirtækja í bænum. Akraneskaupstaður mun eiga frumkvæði að því að virkja og auka samskipti og samstarf við ferðaþjónustuaðila og aðra hagsmunaðila á Vesturlandi til að fjölga ferðamönnum á svæðinu. Markviss kynning verður á Akranesi sem sýninga- og ráðstefnustað, en nýta má mannvirki bæjarins undir stórsýningar af ýmsum toga. Heimasíða bæjarins verður virkjuð sem upplýsingaveita fyrir ferðamenn og íbúa á Akranesi. Auka skal viðhald á fasteignum bæjarins. Hvatt verður til virkrar samvinnu fyrirtækja í bænum. Akraneskaupstaður laði eftir fremsta megni að bænum opinberar stofnanir og hlúi vel að þeim sem fyrir eru.

Efla skal nýsköpun og frumkvöðlastarf með því að virkja mannauðinn í samfélaginu. Stofnuð verður nýsköpunar- og atvinnumálanefnd og Markaðsráði komið á fót að nýju í samvinnu við fyrirtæki í bænum. Fylgt verður eftir samkomulagi um Faxaflóahafnir þar sem kveðið er á um hlutverk Akraneshafnar sem fiskihafnar.  Endurskoðaður verður akstur strætisvagna innanbæjar og til Reykjavíkur til að mæta þörfum bæjarbúa. Almenningssamgöngur eru mikilvægur þáttur í nútíma samfélagi.

 

Menningarmál

Byggja skal upp Safnasvæðið að Görðum og koma því á ný í fremstu röð eftirtektarverðra safna á Íslandi. Tryggja skal að rekstur svæðisins verði ávallt á forræði eigenda. Kynna skal Safnasvæðið sem áhugaverðan vettvang fyrir leik og fræðslu. Fundin skal framtíðarlausn varðandi Kútter Sigurfara. Styrkja skal menningarlífið í bænum með  tiltæku húsnæði fyrir listamenn, leikhópa og tónlistarfólk. Gera skal Vökudögum hátt undir höfði með fjölbreyttum menningarviðburðum í bænum. Fyrirkomulag Írskra daga verður endurskoðað í heild sinni með það að markmiði að kynna betur fyrir fjölskyldufólki írska menningu og þjóðlíf.

 

Umhverfismál

Umhverfisstefna bæjarins sem byggir á Staðardagskrá 21 skal endurskoðuð og henni hrundið í framkvæmd. Samþætta skal umhverfismál allri áætlanagerð bæjarins s.s. fjárhagsáætlun. Til að umhverfismál fái aukið vægi verður sérstök umhverfisnefnd sett á laggirnar. Fylgja skal eftir framkvæmdum við Græna ásinn (tenging svæðanna milli Langasands og Garðalundar) og þróa hugmyndina með tilliti til nýrra verkefna svo sem Viskubrunns í Álfalundi. Greina skal og forgangsraða viðhaldi gatna og göngustíga bæjarins. Gera skal átak í lagfæringum á gömlum og slitnum götum og göngustígum, einkum þar sem steinsteypa er brotin eða illa slitin.  Laga skal aðgengi að fjörunni í Krókalóninu með tilkomu nýrrar frárennslislagnar og hreinnar fjöru. Framkvæma skal reglubundin þrif í bænum árið um kring. Settar verða upp fleiri ruslatunnur og gert átak í því að bæta umgengnishætti íbúanna. Bæta skal aðgengi fatlaðra að stofnunum bæjarfélagsins og möguleika þeirra til að komast leiðar sinnar um bæinn.

 

Skipulagsmál

Tryggja skal að samþykktu skipulagi sé fylgt og tilmæli bæjaryfirvalda um úrbætur séu virt. Ákvarðanir í skipulagsmálum skulu ávallt vera faglegar og teknar í samvinnu við íbúana.  Taka skal til endurskoðunar Miðbæjarskipulagið og nýta sér í því skyni verðlaunatillögu er unnin var á kjörtímabilinu 2002 - 2006.

 

Velferðarmál – skólamál – fjölskyldumál

Akranes er fjölskylduvænn bær og skal markaðssettur sem slíkur. Aukin verða framlög til grunnþjónustunnar með því að breyta forgangsröðun og skila til baka eins fljótt og auðið er niðurskurði í stofnunum sem heyra undir Fjölskyldustofu, svo sem í leik- og grunnskólum.  Auka skal jafnræði í dagvistunargjöldum. Efla á eftir föngum stoðþjónustu (s.s. sérkennslu, sálfræðiþjónustu, námsráðgjöf) í leik- og grunnskólunum. Stutt skal við bakið á framsæknu og kröftugu skólastarfi í bænum og metnaðarfullu tónlistarnámi viðhaldið. Skólastefna fyrir Akraneskaupstað verður unnin á kjörtímabilinu.

Hlúð verður að fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga og unnið að forvörnum og baráttu gegn vímuefnanotkun á skipulegan hátt og með öllum tiltækum leiðum. Heimaþjónusta og heimahjúkrun verður efld enn frekar. Samstarf verður haft við Dvalarheimilið Höfða um að móta framtíðarsýn í málefnum aldraðra varðandi alla þætti sem að umönnun þeirra snúa s.s. heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagvist aldraðra, íbúðir fyrir aldraða og húsnæðismál. Leggja skal áherslu á að Akraneskaupstaður verði leiðandi sveitarfélag í þjónustu við fatlaða og aldraða með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.

 

Verklag

Unnið verður eftir aðgerðaáætlun fyrir Akraneskaupstað þar sem fram koma upplýsingar um komandi verkefni og áætlaðan verktíma.

Flokkarnir eru sammála um að vinna í anda opinnar umræðu og fagmennsku. Lögð er áhersla á að sem flestir komi að umræðum og ákvarðanatöku. Á fjölþættan hátt munu flokkarnir leita eftir viðbrögðum og ábendingum bæjarbúa, s.s. með hverfafundum, viðtalstímum bæjarfulltrúa og tillögum á heimasíðu bæjarins í anda skuggaborg.is. Lögð verður mikil áhersla á málefnakynningar svo að bæjarbúum gefist tækifæri til að setja sig inn í mál og hafa áhrif á niðurstöður.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is