15. júní. 2010 03:01
Síðustu viku hafa 64 Skagamenn gerst heimsforeldrar. Bætast þeir þar með í hóp rúmlega 300 Akurnesinga sem styrkja Unicef með mánaðarlegum framlögum í gegnum heimsforeldraverkefnið og styðja þannig við starf samtakanna í þágu bágstaddra barna um allan heim. “Starfsfólk frá Unicef gekk í hverfi á Akranesi í síðustu viku til að kynna samtökin og heimsforeldraverkefnið með þessum ánægjulega árangri. Eru heimsforledrar í bæjarfélaginu nú orðnir alls 369 talsins, eða tæplega 8% allra íbúa sveitarfélagsins 18 ára og eldri.
Allt frá því að íslensk landsnefnd fyrir Unicef var stofnuð árið 2004 hafa heimsforeldrar verið hjartað í starfseminni. Á síðasta ári komu 64% fjárframlaga til samtakanna frá þessum stóra hópi Íslendinga sem augljóslega lætur velferð og réttindi barna sig varða.
Hvergi eru fleiri heimsforeldrar miðað við höfðatölu en á Íslandi og geta landsmenn því verið stoltir af þeirri staðreynd. Unicef á Íslandi þakkar öllum heimsforeldrum, hvar sem þeir búa á landinu, kærlega fyrir stuðninginn fyrir hönd þeirra barna sem af honum njóta góðs og hvetur sem flesta til að slást í hópinn,” segir í tilkynningu frá samtökunum.