18. júní. 2010 10:19
Veiðin byrjar frábærlega í Þverá og Kjarará í Borgarfirði. Þegar hún hafði staðið yfir í tvo daga höfðu 30 laxar veiðst í Þverá og 20 í Kjarará. Níu laxar voru yfir 70 sentimetrar og veiddi Jón Ingvarsson 87 sentimetra langan lax að morgni þjóðhátíðardagsins í Kaðalsstaðastreng. Annar jafn langur fiskur hafði einnig komið á land daginn áður. Seinni partinn í gær hélt veislan síðan áfram við árnar og áfram veiddist vel.
Tíðindamaður Skessuhorns kíkti ásamt fleirum eftir fiski í Laxfossi í Laxá í Leirársveit í gær og sá allavega tvo laxa, en það er nokkuð síðan fyrstu laxarnir sáust í ánni sem opnar í vikunni. Meðfylgjandi mynd er frá Laxfossi.