23. júní. 2010 01:01
Í dag eru liðin 25 ár frá því að Búnaðarsamtök Vesturlands voru stofnuð formlega. Það voru búnaðarsamböndin þrjú á Vesturlandi; Búnaðarsamband Borgarfjarðar, Búnaðarsamband Dalamanna og Búnaðarsamband Snæfellinga sem stofnuðu samtökin. Bændaskólinn á Hvanneyri var þá aukaaðili að samtökunum. Árið 1997 tóku Búnaðarsamtök Vesturlands yfir rekstur búnaðarsambandanna. Árið 2001 voru búnaðarsamböndin sameinuð undir merki Búnaðarsamtaka Vesturlands. Tekin var stefnan á að byggja upp öfluga leiðbeiningamiðstöð og var það í samræmi við ályktanir Búnaðarþings. Fyrstu árin var leiðbeiningamiðstöðin í Borgarnesi, en í september 2003 var starfsemin flutt að Hvanneyri. Í dag starfar fjöldi manns fyrir samtökin í um 16 stöðugildum enda spannar starfssvæðið Vestfirðina, Vesturland, Kjalarnes og Reykjanesið.
Formaður BV er Guðný Heiðbjört Jakobsdóttir bóndi í Syðri Knarrartungu í Snæfellsbæ og framkvæmdastjóri er Sigríður Jóhannesdóttir, Hvanneyri.
Ekki verður haldið upp á afmælið í dag með neinum sérstökum hætti en heitt verður á könnunni eins og alltaf fyrir gesti. Stefnt er að því að halda upp á tímamótin síðar og þá jafnvel í tengslum við árshátíð bænda á starfssvæðinu, Sveitateiti.