Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. júní. 2010 11:01

Húsin í sókninni – sýning opnuð á Fitjum í Skorradal

Vatnslitamynd af Fitjakirkju eftir Gunnlaug Stefán.
Um næstu helgi opnar sýningin „Húsin í sókninni“ í Gallerí Fjósakletti á Fitjum í Skorradal. Þetta er samstarfsverkefni eigenda Fitja og listamannsins Gunnlaugs Stefáns Gíslasonar sem sýnir vatnslitaverk af öllum 20. aldar íbúðarhúsum í Fitjasókn. Jafnframt verður opnuð ljósmyndasýning auk sýningar þar sem gestir geta séð hvernig Skemman á Fitjum hefur verið klædd innan með skífum úr ungskógi á Fitjum og greni frá Stálpastöðum.

Gunnlaugur Stefán er sonur Vigdísar Klöru sem var systir Guðmundar og Stefáns Stefánssona á Fitjum. Tilgangur sýningarinnar er að vekja áhuga á varðveislugildi þeirra húsa í sókninni sem ekki eru þegar fallin og varðveita minningar um bæina, eins og þeir voru þegar um 50 manns áttu heima í Fitjasókn. Þegar sýningunni lýkur verður eftirprentunum af listaverkunum komið fyrir til frambúðar á skiltum í skógarrjóðri á Fitjum, þar sem að auki verða upplýsingar um eigendur og ábúendur jarðanna á 20. öld.  Menningarráð Vesturlands styrkti það verkefni.

 

Auk listaverka Gunnlaugs Stefáns eru á sýningunni í Gallerí Fjósakletti sýndar gamlar ljósmyndir sem safnað var hjá fyrrum ábúendum jarðanna. Tilgangurinn með þessari viðbót við listaverkin er að gefa innsýn í mannlífið í sókninni eins og það var meðan „framdalurinn“ iðaði af mannlífi. Nú er svo komið að heita má mannauðn í Fitjasókn því allar jarðir sem henni tilheyrðu á 20. öld fóru í eyði eftir miðja öldina og mörg þeirra íbúðarhúsa sem reist voru eftir torfbæina eru nú ýmist illa farin eða horfin, þó með þeirri undantekningu að húsið í Háafelli hefur notið umhyggju og verið varðveitt af stakri fyrirmynd. Það er von aðstandenda sýningarinnar að unnt verði að forða þeim húsum sem eftir standa frá tortímingu,  því sem heild eru húsin og umhverfi þeirra mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um fyrri tíðar búskaparhætti og  aðstæður sem fólk bjó við.

Auk sýningarinnar er gestum boðið að skoða Skemmuna á Fitjum sem nú hefur verið klædd „skífum“ úr ungskógi á Fitjum og greni frá Stálpastöðum, en Framleiðnisjóður landbúnaðarins studdi þetta frumkvöðlaverkefni. Þess er vænst að fyrrum sóknarbörn Fitjasóknar og afkomendur þeirra fjölmenni á sýninguna, en hún ætti einnig að höfða til allra áhugamanna um menningarminjar og húsafriðun. 

 

Sýningin verður opin til 15. september frá kl. 14:00 til kl. 18:00 alla daga vikunnar nema mánudaga og þriðjudaga.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is