24. júní. 2010 12:01
Þegar komið er inn í Byggðasafn Dalamanna í kjallara skólabyggingarinnar á Laugum í Sælingsdal blasir við skonsa þar sem í forgrunninum eru skór; vinnuskór til útivinnu, tréklossar til innivinnu, gúmmíbomsur hentugar í rigningartíð og annað skótau. Það er rétt eins og þarna hafi einhver rétt brugðið sér frá. Innan við í skonsunni eru síðan veggir og borð þakið trésmíðaáhöldum. Valdís Einarsdóttir safnvörður segir að þetta sé það sem stofnandi og „faðir byggðasafnsins,“ Magnús Gestsson húsasmiður og kennari skildi eftir sig. „Og þarna er náttúrlega útvarpið og hraðsuðuketillinn sem hann hafði með sér í vinnuna,“ sagði blaðamaður og benti á tæki á hefilbekknum. „Nei, nú verð ég að leiðrétta,“ sagði Valdís. „Magnús bjó nefnilega hérna í kjallaranum í um 20 ár eftir að safnið var opnað.
Sagan bak við stofnun safnsins og sérstaklega þáttur Magnúsar er merkilegur og ég reyni mikið að halda því á lofti,“ bætir Valdís við.
Ýmislegt forvitnilegt bar fyrir augu blaðamanns Skessuhorns í heimsókn í Byggðasafn Dalamanna að Laugum í Sælingsdal í vikunni sem leið. Ítarlegt viðtal er við Valdísi í Skessuhorni sem kom út í gær.