28. júní. 2010 08:01
Skemmtilegur leikur fór fram á Ólafsvíkurvelli á laugardaginn þar sem Víkingur Ó tók á móti Hvöt frá Blönduósi í hörkuleik þar sem heimamenn höfðu yfirhöndina mestan tímann. Eldar Masic skoraði á þriðju mínútu eftir hornspyrnu og var staðan í hálfleik 1-0. Á 57. mínútu tók Brynjar Kristmundsson hornspyrnu sem Gauti skallaði í netið með þvílíkum skutlu-skalla og staðan því 2-0. Þegar þar var komið sögu voru leikar farnir að æsast allverulega og gul spjöld ekki spöruð af dómaranum. Á 60. mínútu fékk leikmaður Hvatar sitt annað gula spjald og þar af leiðandi rautt og voru Víkingar því manni fleiri síðustu 30 mínúturnar.
Á 67. mínútu fengu Hvatarmenn aukaspyrnu við hornteig Víkings en þar misreiknaði Einar markvörður Víkings stefnu boltans og fór hann í netið og staðan því 2-1. Víkingur sóttu þá linnulaust og óðu í færum. Þó voru það Hvatar menn sem áttu næsta mark. Brotið var á sóknarmanni þeirra í vítateigi Víkings og fékk Hvöt því dæmda vítaspyrnu og úr henni var skorað og leikurinn þar með orðinn jafn. Víkingur sóttu áfram einum fleiri og á 90. mínútu var brotið á Fannari innan vítateigs Hvatar og fengu heimamenn fá víti sem Brynjar Kristmundsson skoraði örugglega úr. Þar með sigruðu Víkingar í miklum baráttuleik og fóru jafnframt á toppinn í deildinni með 17 stig.