29. júní. 2010 07:01
 |
Hugað að viðhaldi eldra húss. Ljósm. Friðþjófur H. |
Stjórnvöld í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins hafa ákveðið að efna til hvatningarátaks í sumar í þágu innlendrar atvinnustarfsemi, framleiðslu, verslunar og þjónustu. Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands taka þátt í verkefninu. Þar er fólk hvatt til þess að nýta sér endurgreiðslu virðisaukaskatts og skattaívilnanir til að framkvæma og vinna við íbúðarhúsnæði og sumarhús og nýta sér fagmenn við þau verk.
Átakið felur meðal annars í sér persónulega ráðgjöf fagmanna um handbragð við viðhaldsframkvæmdir undir leiðsögn byggingadeildar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Leitað hefur verið til fjármálastofnana um að taka þátt í átakinu og bjóða sérstök framkvæmdalán til almennings á hagstæðum kjörum í tengslum við átakið. Þá mun Byggðastofnun bjóða fyrirtækjum á landsbyggðinni óverðtryggð lán til viðhaldsverkefna. Þau verða til 12 ára á 7% óverðtryggðum vöxtum. Einnig verða vikuleg tilboð á vörum og þjónustu íslenskra fyrirtækja í tengslum við átakið.
Stjórnvöld hækkuðu sl. vetur endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu við eigið íbúðarhúsnæði og sumarhúsa í 100% úr 60%. Þá voru einnig samþykktar skattaívilnanir til einstaklinga sem fjárfesta í viðhaldi á eigin húsnæði sem nema allt að 200 þúsund króna lækkun á tekjuskattsstofni hjá einstaklingum og 300 þúsund krónum hjá hjónum og samsköttuðum.