28. júní. 2010 04:15
Valdís Þóra Jónsdóttir Golfklúbbnum Leyni á Akranesi hafnaði í 2.-3 sæti ásamt Nínu Björk Geirsdóttur GKj á Canon mótinu sem fram fór á Urriðavelli í Garðabæ um helgina, en þetta var þriðja mótið þetta sumarið í Eimskipsmótaröðinni. Þær stöllur lentu í bráðabana við Tinnu Jóhannsdóttur GK sem sigraði í mótinu, en Valdís Þóra sigraði í tveimur fyrstu mótunum og er því með bestan samanlagðan árangur á mótaröðinni.
Valdís Þóra lék mjög vel í heild á mótinu og lék til að mynda einu höggi undir pari síðasta daginn, en mótið stóð yfir í þrjá daga og alls voru spilaðar 54 holur. Það var sextánda brautin á öðrum degi sem setti stórt strik í reikninginn hjá Valdísi Þóru. Þá skaust boltinn af steini út í hraun, þar sem vitni sáu kúluna en síðan var eins og jörðin hefði gleypt hana. Þessi 16. hola kostaði Valdísi tíu högg, en fyrir hana var hún tveimur höggum undir pari. Valdísi tókst svo að vinna þetta upp síðasta daginn með frábærri spilamennsku.
Það var Hlynur Geir Hjartarson GK sem sigraði í karlaflokki á Canon mótinu á Urriðavelli um síðustu helgi. Næsta keppni hjá Valdísi Þóru er Evrópumót landsliða sem fram fer á Spáni í næstu viku.