30. júní. 2010 07:01
Forsvarsmenn Bændasamtaka Íslands og Landssambands smábátaeigenda héldu í gær fund um dóm Hæstaréttar vegna gengistryggðu lánanna og viðbrögð við honum. Þar var ákveðið að gefa út sameiginlega yfirlýsingu sem hljóðar svo: “Forsvarsmenn Bændasamtaka Íslands og Landssambands smábátaeigenda undrast fálmkennd og ómarkviss viðbrögð stjórnvalda og fjármálafyrirtækja við skýrum dómi Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána. Samtökin skora á öll fjármálafyrirtæki að hlíta afdráttarlausri niðurstöðu Hæstaréttar og grípa til aðgerða þegar í stað og færa höfuðstól gengistryggðra lána til þeirrar upphæðar sem tekin var að láni og endurgreiða lántökum að teknu tilliti til samningsvaxta. Þá skal stöðva allar innheimtuaðgerðir.”