30. júní. 2010 04:00
Útþráin og ævintýramennskan er rík í fari sumra. Á sínum tíma sagði Borgfirðingurinn Egill Skallagrímsson; „Út vil ek.“ Um 800 árum síðar var það sama útþráin sem kvaldi ungan Skagamann, Björgvin K. Björgvinsson. Hann fæddist árið 1957 og ólst upp í allstórum systkinahópi í gömlu húsi sem hét Vinaminni og stóð þar sem nú er safnaðarheimili Akurnesinga með sama nafni. „Ég man varla eftir mér öðruvísi en ég hafi verið ákveðinn í því að þegar ég mætti, þá færi ég á flakk út fyrir landsteinana,“ sagði Björgvin í samtali við Skessuhorn. Hann á að baki sérstakt lífshlaup og lenti á endanum í slíkri mannraun að raunverulega er með ólíkindum að hann sé í lifenda tölu. Björgvin starfaði í átta ár í kolanámum í Longyearbyen á Svalbarða og varð þar fyrir slysi sem batt endi á hans starfsferil. „Ef þetta hefði ekki gerst gæti vel verið að ég væri ennþá á Svalbarða. Þótt margir gæfust upp á þessari vist, í myrkrinu og kuldanum, hentaði þetta mér ágætlega.
Mikil samkennd var meðal námumanna og það var svo þægilegt að fyrirtækið sem átti námurnar sá fyrir öllu í bænum. Maður þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum nema vinna,“ sagði Björgvin sem hefur frá ýmsu að segja frá útrásarárum sínum, en á þeim dvaldi hann lengstum á Svalbarða og í Noregi.
Sjá ítarlegt viðtal við Björgvin í Skessuhorni sem kom út í dag.