01. júlí. 2010 11:01
„Við reynum að bæta aðeins í, höldum í vinsæla dagskrárliði og reynum að gera þar ennþá betur auk þess sem nýir liðir eru að bætast inn á dagskrána. Meðal annars hefur sandkastaleikurinn á Langasandi verið mjög vinsæll og þar verður nú boðið upp á fleiri flokka og fjölda verðlauna. Skemmtilegar nýjungar eru til dæmis ljósmyndasýning sem félag áhugaljósmyndara í bænum stendur fyrir, með risamyndum á þróarvegg Sementsverksmiðjunnar við Faxabraut. Það eru einmitt félagasamtök sem eru að koma með liði inn í dagskrána sem hjálpar þegar ekki er til alltof mikið af peningum. Þannig hefur félagsskapur sem kallar sig „árgangur ‘71“ fengið írskættaðan skota til að spila á sekkjapípu sína út um allan bæ og þannig á það að vera á Írskum dögum, eitthvað að gerast víða í bænum. Þetta verður án efa gott innlegg í þá viðleitni Skagamanna að minnast uppruna síns á Írskum dögum,“ segir Tómas Guðmundsson verkefnisstjóri á Akranesstofu.
Tómas segir að meðal þeirra liða sem lagt er meiri í en oft áður sé lokahátíð Írskra daga, fjölskylduhátíðin í Garðalundi á sunnudag. „Ég hvet foreldra til að mæta með börn í Skógræktina og eiga þar skemmtilegan dag.“
Ýmissa grasa kennir á dagskrá Írskra daga sem byrja á Akranesi með tónleikum í Gamla Kaupfélaginu í kvöld, fimmtudagskvöld, og enda síðan með fjölskyldudegi í Garðalundi á sunnudag. Opnunarhátíð Írsku daganna verður á Safnasvæðinu milli klukkan tíu og ellefu á föstudagsmorgun og dagskráin byrjar síðan á fullu seinni partinn. Um kvöldið verða götugrillin út um allan bæ fyrir kvöldvökuna í Miðbænum þar sem fram koma þekktir skemmtikraftar auk þess sem boðið verður upp á tískusýningu frá fataverslununum á Akranesi. Seinna um kvöldið byrjar síðan afmælishátíð Gamla kaupfélagsins.
Fjölbreytt dagskrá er á laugardeginum þar sem væntanlega allir finna eitthvað við sitt hæfi. Meðal annars verður vísindasýning fyrir börn og unglinga á Jaðarsbökkum og í íþróttahúsinu verður markaðsstemning. Skemmtilegar keppnir verða í gangi, eins og hittnasta amman í körfubolta og ekta írskt atriði „rauðhærðasti Íslendingurinn“. Um kvöldið verður svo hinn árlegi brekkusöngur við Þyrlupallinn og að honum loknum Lopapeysan við Sementsverksmiðjuna.
Sjá nánar dagskrána sem enn er að taka breytingum, inni á www.irskirdagar.is og í auglýsingu í Skessuhorni.