01. júlí. 2010 10:37
 |
Stoltur veiðimaður í Grímsá. |
Nú rignir um allt Vesturland og ættu laxveiðimenn að kætast við það. Þrátt fyrir fremur mikla þurrkatíð að undanförnu er laxveiðin þó ágæt. Þannig hefur veiðin í Þverá í Borgarfirði verið ótrúlega góð, en í gærkvöldi voru komnir 518 laxar á land úr ánni og síðastu holl fékk 180 laxa í báðum ánum. “Veiðin gengur vel hjá okkur og það eru laxar að koma á hverju flóði,” sagði Jón Ólafsson er við spurðum frétta af veiðinni í Þverá og Kjarará.
Norðurá hefur gefið 400 laxa en vatnið er orðið asni lítið í ánni. Flókadalsá í Borgarfirði er komin með 155 laxa og fyrstu laxar sumarins eru komnir á land í Laxá í Dölum. Haffjarðará er komin með 250 laxa og Grímsá ásamt Tunguá eru að nálgast 200 laxa múrinn. Gangurinn er góður í laxveiðinni þessa dagana og það er farið að rigna. “Þetta er allt annað að fá svolitla rigningu. Við viljum bara miklu meira af henni,” sögðu veiðimenn sem við heyrðum í við Hítará í morgun. Það eru orð að sönnu.