01. júlí. 2010 02:01
Góð aðsókn var að frjálsíþróttaskóla UMFÍ sem stóð yfir í Borgarnesi í síðustu viku. Skólinn er auk þess starfræktur á sjö öðrum stöðum á landinu í sumar. Þetta er þriðja sumarið í röð sem skólinn starfar en mjög góð aðsókn var á námskeiðunum sem hófust í síðustu viku á Laugum, Egilsstöðum og í Borgarnesi. Frjálsíþróttaskólinn er spennandi tækifæri fyrir ungmenni sem vilja reyna sig í fyrsta sinn eða efla sig í frjálsum íþróttum. Áhugasamir velja þann stað sem hentar hverjum og einum og taka um leið þátt í góðum félagsskap. Auk íþróttaæfinga voru líflegar kvöldvökur, varðeldur, gönguferðir og ýmsar óvæntar uppákomur. Meðfylgjandi mynd var tekin á lokadegi skólans í Borgarnesi.