02. júlí. 2010 08:01
Aflaverðmæti íslenskra skipa nam tæplega 35,7 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2010 samanborið við 26,5 milljarða á sama tímabili 2009. Aflaverðmæti jókst því um rúmlega 34% á milli ára. Þetta kemur fram í frétt frá Hagstofu Íslands í gær. Í fréttinni segir einnig: „Aflaverðmæti botnfisks var í lok mars orðið 27,4 milljarðar og jókst um 27,6% frá sama tíma í fyrra þegar aflaverðmætið nam tæpum 21,5 milljörðum. Verðmæti þorskafla var um 15,2 milljarðar og jókst um 30% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam rúmum 4,7 milljörðum og jókst um 16,4%, en verðmæti karfaaflans nam tæpum 3,9 milljörðum, sem er 26,2% aukning miðað við fyrsta ársfjórðung 2009. Verðmæti ufsaaflans jókst um 35,7% milli ára og nam tæpum 1,5 milljarði fyrstu þrjá mánuði ársins.
Verðmæti flatfiskafla nam rúmum 2,1 milljarði króna í janúar til mars 2010, sem er 25,5% aukning frá fyrra ári. Aflaverðmæti uppsjávarafla jókst um 83% milli ára og nam tæpum 6 milljörðum. Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 16,3 milljörðum króna og jókst um 39,7% frá árinu 2009. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands jókst um 45,0% milli ára og var um 5,9 milljarðar. Aflaverðmæti sjófrystingar var 10,4 milljarðar sem 56,1% aukning milli ára."