02. júlí. 2010 11:01
 |
Ólafur Valur skoraði tvívegis í gær. |
ÍA vann mjög mikilvægan sigur á Gróttu þegar liðin mættust í grenjandi rigningu á Seltjarnarnesinu í gærkveldi. Skagamenn skoruðu nú fjögur mörk gegn einu marki Gróttumanna og vonandi fara nú hlutirnir að ganga betur hjá strákunum á Skaganum. ÍA fór með sigrinum í 11 stig og færðist úr tíunda sætinu í það sjöunda. Skagamenn byrjuðu vel í leiknum og ekki voru liðnar nema fimm mínútur þegar Ólafur Valur Valdimarsson komst inn í sendingu aftur til markmanns Gróttu og skoraði.
Gróttumenn jöfnuðu sjö mínútum síðar en Skagamenn komust yfir um miðjan hálfleikinn. Þá var það Andri Júlíusson sem skoraði að stuttu færi eftir mikið harðfylgi félaga síns þar sem hann náði boltanum út við endamörkin og sendi boltann á fjærstöngina. Undir lok fyrri hálfleiks var Ólafur Valur Valdimarsson aftur á ferðinni þegar hann skaut boltanum vinstri megin úr teignum í einn varnarmann Gróttu og í markið. Staðan var því 3.1 í hálfleik og það voru svo Skagamenn sem voru sterkari í seinni hálfleiknum og tókst þá að bæta við einu marki. Það var á 62. mínútu þegar brotið var á Hirti Hjartarsyni inni í teig og dæmd var vítaspyrna. Arnar Már Guðjónsson skoraði úr spyrnunni.
Næst fá Skagamenn ÍR í heimsókn nk. föstudagskvöld. ÍR-ingar eru í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig.